SMT-skólafærni

Leikskólinn hefur starfað eftir SMT skólafærni í nokkur ár og er verkefnið búið að festa sig vel í sessi í starfinu. Í desember 2012 varð leikskólinn sjálfstæður SMT leikskóli en það geta þeir leikskólar orðið sem hafa náð ákveðnuviðmiði.Á hverju vori er gerð verkefnaáætlun sem unnið er eftir allt skólaárið. Einu sinni á ári er lagður fyrir Set-listi. Það er matslisti sem lagður er fyrir starfsmenn og börn leikskólans. Niðurstöðurnar eru notaðar til að meta hvort ákveðnir þættir verkefnisins séu til staðar, meta árangur, þróa og endurskoða aðferðir og bera saman á milli ára. Niðurstöður úr Set lista lögðum fyrir á Hlíðarbergi árið 2013 voru góðar en þar náðust 93% stiga af 100 mögulegum. Sjö kennarar hafa sótt grunnnámskeið í SMT og hafa tilskilin réttindi til að leggja fyrir og kenna SMT-aðferðina. Aðrir starfsmenn hafa fengiðkynningu og/eða fyrirlestur og námskeið fyrir byrjendur.

SMT-skólafærni

Markmið SMT-skólafærni (hafnfirsk útfærsla á bandarísku aðferðinni Positive Behavior Support/PBS) er að skapa gott andrúmsloft í skólum og tryggja öryggi og velferð nemenda og starfsfólks. Lögð er áhersla á að koma í veg fyrir og draga úr óæskilegri hegðun nemenda með því að kenna og þjálfa félagsfærni, gefa jákvæðri hegðun gaum með markvissum hætti og samræma viðbrögð starfsfólks gagnvart nemendum sem sýna óæskilega hegðun. Þessi nálgun byggir á margra ára rannsóknum sérfræðinga, í Oregon í Bandaríkjunum, og er framkvæmd í samráði við þá.

SMT-skólafærni byggir á hugmyndafræði PMT-FORELDRAFÆRNI og er framkvæmd undir merkjum þeirrar þjónustueiningar, sem verið hefur leiðandi hér á landi í notkun og útbreiðslu PMT verkfæra til uppalenda. PMT (Parent Management Training) verkfærin eru vel rannsökuð af færustu sérfræðingum, notkun þeirra stuðlar að góðri aðlögun barna og þau eru því afar mikilvæg hjálpartæki. Foreldrum býðst að tileinka sér PMT- foreldrafærni jafnframt því sem skólasamfélagið á möguleika á innleiðingu SMT-skólafærni.

SMT-aðferðin

Rannsóknir hafa leitt í ljós að í hverjum skóla má gera ráð fyrir þrenns konar nemendum. „Venjulegum" nemendum (85 til 90%), nemendum sem sýna fyrstu merki andfélagslegrar hegðunar og eiga á hættu að þróa með sér andfélagslegt hegðunarmynstur (7 til 10%) og nemendum sem þegar sýna töluverða andfélagslega hegðun og eru í mikilli áhættu vegna enn frekari vandamála í framtíðinni (3 til 5%). Gert er ráð fyrir því að brugðist sé við þessum þremur nemendahópum á mismunandi hátt og er áætlað að tvö til fjögur ár taki að innleiða þessi vinnubrögð í skólasamfélagið.

Framkvæmd

Á fyrsta ári er lögð áhersla á að styðja alla nemendur skólans. Reglur eru settar fram þannig að þær eru einfaldar, nákvæmar og vel ljóst til hvers er ætlast. Dæmi: Göngum hægra megin, notum innirödd, rusl í ruslafötur. Reglur eru hafðar sýnilegar, hengdar upp á veggi og kenndar með sýnikennslu, dæmum og æfingum. Hvatning er notuð á ýmsa vegu til að umbuna nemendum fyrir árangur, framfarir og það sem vel er gert. Mikil áhersla er á notkun félagslegrar hvatningar (hrós) og margir skólar hafa nýtt sér ýmis konar táknkerfi sem formlega leið hvatningar. Skýr mörk eru sett og skilgreind eru minni háttar og alvarlegri hegðunarfrávik. Vegna óæskilegrar hegðunar eru skilgreindar viðeigandi afleiðingar, þær eru breytilegar og ráðast af alvarleika hegðunar.

Á öðru ári er lögð áhersla á að styðja við afmarkaðan hóp nemenda – nemendur sem sýna fyrstu merki andfélagslegrar hegðunar. Áhersla er lögð á skipulag á afmörkuðum svæðum skólans eins og í skólastofu en það dregur verulega úr líkum á árekstrum. Nemendur fá kennslu og þjálfun í aðferðum eins og athyglismerki (merki sem er gefið þegar fanga þarf athygli nemenda) og einbeitingaleik (felst í því að kenna nemendum að hunsa truflun). Frekari stuðningur getur falist í endurmenntun (þar sem nemendur fá tækifæri til að æfa sig enn frekar í að fylgja reglunum) og almennt auknu aðhaldi. Aðferðir lausnaleitar eru innleiddar, þær kenna nemendum hvernig leysa má ágreining með skipulögðum og yfirveguðum hætti þannig að tillit sé tekið til sjónamiða allra sem að málinu koma og lausn fundin sem allir geta sæst á.

Á þriðja ári er lögð áhersla á að styðja við nemendur sem þegar sýna töluverða andfélagslega hegðun. Unnið er mjög markvisst að aukinni aðlögun þessara nemenda í samstarfi við foreldra og jafnvel stofnanir. Stuðlað er að viðeigandi PMT-ráðgjöf fyrir foreldra, auk einstaklingsmiðaðra aðgerða í skóla. Nemandinn fær jafnframt enn þá markvissari kennslu og þjálfun í félagsfærni.

GEFIÐ SKÝR FYRIRMÆLI þau auka líkur á samstarfsvilja barna. Leitist við að vera róleg, ná athygli barnsins, sýna kurteisi, virðingu og ákveðni, vera nákvæm, nota staðhæfingar, segja barninu hvað það á að gera, forðast rökræður, nöldur og neikvæðar tilfinningar. Setjið skýrar reglur og tryggið að barnið skilji reglurnar með því að útskýra þær vel og æfa með barninu. Nýtið hvatningu í ríkum mæli því hvatning beinir athygli að jákvæðri hegðun. Hrós er góð leið til að sýna börnum jákvæða athygli og til að auka tíðni æskilegrar hegðunar. Vel útfærð umbunar- eða táknkerfi henta einnig prýðilega, sérstakleg ef auka á samstarfsvilja á afmörkuðu sviði. Stöðvið óæskilega hegðun með mildum og sanngjörnum afleiðingum – það eykur sjálfsstjórn barna. Temjið ykkur reglur um virk samskipti og lausnaleit. Slík færni eykur til muna lýðræði í fjölskyldum, dregur úr ágreiningi og styrkir foreldra til lengri tíma. Hafið eftirlit með hegðun barns til að tryggja öryggi þess og stuðla að alhliða þroska. Verið alltaf með svör við eftirfarandi spurningum: Hvert ætlar barnið og hvenær kemur það aftur? Með hverjum ætlar barnið að vera? Hvað er barnið að fara að gera? Hvernig fer barnið á milli staða? Hafið einnig jákvæð afskipti og eftirlit með skólagöngu.

Styðjandi foreldrafærni – sjá heimasíðu: www.pmt-foreldrafaerni.is